Orð til umhugsunar

Trúarinnar góða barátta, Páll segir að baráttan sé góð, vegna þess að sigurinn er unninn um leið og þú tekur þá ákvörðun að berjast. Af hverju, jú Jesús hefur þegar unnið sigurinn og um leið og við ákveðum að berjast trúarinnar góðu baráttu, þá staðsetjum við okkur í Kristi eða í sigri Hans. 1.Tím 6:12 og Róm 8: 37.

Lífið er oft barátta, en samt er lífið yndislegt. Hugsaðu um knattspyrnuleik, þar sem öllum er sama, hvernig leikurinn fer og allir leikmenn passívir. Það entust ekki margir til að horfa á þann leik.

Í lífinu þurfum við hins vegar stundum að heyja stríð sem við höfum ekki óskað eftir, við höfum ekki val. Annað hvort tökumst við á við vandamálin og leysum þau eða m.ö.o. sigrum eða vandamálin brjóta okkur.

Maðurinn var skapaður af Guði til að drottna yfir jörðinni og það er í eðli mannsins að sigrast á þrengingum, sjúkdómum os.frv.

Þegar við finnum að kringumstæður drottna yfir okkur, og við náum ekki að rísa upp yfir þær, þá kallar það á þunglyndi og vonleysi.

Þess vegna kemur þessi hvatning frá Páli.

Berstu trúarinnar góðu baráttu, það eru engar þær kringumstæður, sem að Jesús Kristur hefur beðið ósigur fyrir. Ef þú ert í Honum og Hann í þér þá er sigurinn þinn.

Guð blessi þig í Jesú nafni.

Kristinn Ásgrímsson