Lögðum upp að morgni 5 okt til Nakuru Kenya. Þurftum að bíða 6 klst í London, flugum síðan til Narobi þar sem við lentum kl 06.00 að morgni. Með mér í för var Sölvi Hilmarsson vinur minn og trúbróðir. Tilgangur farar okkar var tvíþættur, fyrst heimstóttum við biblíuskóla þar sem ég kenndi í eina viku og Sölvi vann við smíðar. Á skólanum voru 29 nemendur flestir forstöðumenn og leiðtogar. Síðan heimsóttum við einnig hjálparstarf sem kallast “ New Life Africa International “ sem er hjálparstarf fyrir götubörn. Heimilið hýsir nú um 90 börn og hefur skóla fyrir 500 börn, sem annars hefðu ekki efni á skólagöngu. Þessi börn fá einnig máltíð í skólanum, sem fyrir mörg þeirra er jafnevel þeirra eina máltið. Einnig er rekin neyðarmóttaka fyrir einstæðar mæður á tveim stöðum í borginni og er full þörf þar á .
Hvítasunnukirkjan í Keflavík hefur styrkt þetta starf og er áætlað að kynna það betur í byrjun næsta árs, en þá munu Leif og Susanne Madsen sem eru brautryðjendur þessa starfs sækja okkur heim.
Nú við lentum sem fyrr segir snemma morguns í Nairobi, þar sem Paul Tocco bandaríkjamaður og skólastjóri biblíuskólans tók á móti okkur. Hann og fjölskylda hans hafa dvalið 14 ár í Kenya og stofnuðu þennan skóla í trú. Borgin var að vakna til lífsins og vakti það athygli okkar hve margir voru á gangi meðfram þjóðveginum. Paul uppfræddi okkur um það að fætur væru algengasta farartækið þarna. Nú við lögðum síðan að stað áleiðis til Nakuru og í fyrstu var vegurinn svona álíka og verstu kaflarnir á leið til Akueyrar . En eftir um 100 km akstur þá lauk malbikaða kaflanum og nú tóku við vegaskorningar sem ég man varla eftir á Íslandi. En afríkubúar aka samt á fullu þótt farartækin fari í loftköstum.
Nú við dvöldum síðan á skólanum í viku og dvöl okkar lauk þar með heimsókn í „Slummið“ eða fátækrahverfið við öskuhaugana. Eftir þá upplifun, þá verð ég að segja að fátækt og fátækt er kannski ekki sami hluturinn. Þá á ég við það sem kallast fátækt á Íslandi og fátækt á öskuhaugum Nakuru, nú eða bara götubörnin í Nakuru.
Nakuru telur um 1 milljón íbúa og þar eru um 3000 götubörn, sem er mjög átakanlegt að sjá. Okkur er tjáð að stjórnvöld loki augunum fyrir þessum vanda, en sem betur fer eru mörg hjálparsamtök að vinna gott starf þarna. Ekki endilega þessi stóru samtök, heldur hittum við þarna nokkra einstaklinga eins og Susanne og Leif, sem hafa bara farið og byrjað að hjálpa. Götubörninn sniffa lím til að deyfa hungrið.
Mánaðlaun verkafólks eru um $ 40 og það nægir varla fyrir mat.
Eins og fyrr segir þá eyddum við 3 síðustu dögunum með Leif og Susanne og skoðuðum barna og hjálparstarfið. Það er kraftaverk hvað þessi hjón hafa áorkað á síðustu 13 árum. Við hittum einnig nokkra af þeirra fyrstu götudrengjum, sem nú voru orðnir fulltíða menn og komnir út í atvinnulífið.
Hlýddum á frásögn fyrrverandi vændiskonu, sem var þakklát fyrir þetta starf og það nýja líf sem hún hafði eignast og gaf hún Guði dýrðina fyrir það.
Við héldum síðan heim á leið mánudaginn 15 okt til Narobi til að ná flugi til London morguninn eftir. Þetta kvöld fórum við út að borða með gestgjöfum okkar og á leið heim á gistiheimilið fengum við að kynnast lögreglunni í Narobi. Ökumaður okkar var stöðvaður og hafði hann gleymt að setja á sig öryggisbelti. Okkur var tjáð að hann þyrfti að mæta hjá dómara daginn eftir. Einnig var honum tjáð að það væru 70 á undan honum í röðinni, þannig að hann gæti þurft að bíða í dómshúsinu í 2-3 daga. Er ekki hægt að borga sektina á staðnum. Því miður, höfum ekki kvittanaheftið var svarið. Eftir mikið þref þá endaði þetta mál með því að ökumaður okkar greiddi yfirmanninum þarna á götunni jafnvirði 500 kr íslenskar . Ekki mútur sagði lögreglan, heldur þakklætisvottur fyrir góða meðferð.
Morguninn eftir héldum við svo heim á leið með Virgin Atlantic til London þakklátir fyrir landið okkar Ísland, en samt með ákveðnum trega, því þarna er mikið verk að vinna.