Um Kirkjuna

Pastorar/Safnaðhirðar

  • Kristinn Ásgrímsson
  • Þórdís Karlsdóttir

Stjórnarmenn

  • Sölvi Hilmarsson
  • Sigurður Jónsson
  • Snorri Óskarsson
Hvítasunnukirkjan í Keflavík samanstendur af fólki sem vill fylgja Jesú Kristi. Við trúum að Jesús Kristur sé svarið, eins og sjá má skrifað á framhlið kirkjunnar.

Margir eru leitandi og allir hafa andlega þörf. Biblían skýrir frá því að maðurinn sé skapaður til samfélags við Guð. Einnig kennir Biblían okkur að við höfum öll syndgað og að syndin rjúfi þetta samfélag Guðs og manns. Við getum með réttu sagt að syndin sé rót alls ills.

Syndin er því vandamálið og Jesús Kristur lausnin. Málið er einfalt, Jesú Kristur er sá sem frelsar okkur frá syndum okkar og sættir okkur við Guð. Þess vegna er Jesús Kristur svarið, bæði fyrir þetta líf og hið komandi.

Við trúum að tilgangur lífsins byrji hjá sérhverjum manni, þegar hann gerir Jesú Krist að leiðtoga lífs síns.

1.Kor 1.9. „Trúr er Guð, sem yður hefur kallað til samfélags sonar síns Jesú Krists Drottins vors.“

Saga safnaðarins

Sumarið 1950 dvöldu þau Signe og Eric Ericson í Svíþjóð. Er þau héldu aftur til Íslands seint um haustið, höfðu þau meðferðis bíl, sem gefinn var til starfsins hér á landi. Það hafði lengi verið ofarlega á óskalistanum hjá Ericson, að fá trúboðsbíl og var því gleði þeirra mikil. Bíllinn átti eftir að verða hinn þarfasti þjónn trúboðsins. *1 Ericson fór margar trúboðsferðir um Ísland á bílnum, en sérstaklega var nágrenni Reykjavíkur oft heimsótt. ?Við erum þá vön að fara saman tólf manns á tveim bílum og störfum í einum bæ eða þorpi að útbreiðslu ritaðs máls?. Farið var hús úr húsi til að selja blöð og bækur ?og talað við fólkið um nauðsyn frelsisins?. *2

Einn þeirra staða sem heimsóttir voru öðru hvoru, var Keflavík. Að því kom, að Ericson fannst tími til kominn að hefja þar fast starf. Hann sótti því um lóð fyrir samkomuhús og fékk úthlutað stórri lóð við Hafnargötu 84. Fluttur var stór og rúmgóður skúr frá Reykjavík til Keflavíkur, sem nota átti jöfnum höndum fyrir íbúð og verkstæði. Þessi skáli var notaður sem samkomuhús fyrstu árin. Þar var hafður sunnudagaskóli og einnig opinberar samkomur, en þegar aðsókn að samkomunum fór að aukast á árinu 1953 var ljóst, að þetta var ófullnægjandi húspláss til samkomuhalda. Var því hafist handa við undirbúning húsbyggingar og voru teikningar tilbúnar snemma árs 1954 og var fyrirhugað að hefja byggingarframkvæmdir um vorið. *3

Ljóst er að byrjað var á byggingunni 1954, því í janúar 1955 er sagt að Ericson hafi mikinn hluta ársins verið upptekinn við byggingu samkomuhúss í Keflavík. *4

Lokið var við samkomuhúsið á árinu 1957 og var það vígt þann 7. apríl sama ár að viðstöddu fjölmenni. Húsið er tvær hæðir, stórt og reisulegt og er aðalsamkomusalurinn á efri hæðinni, en lítill salur og íbúð á þeirri neðri. *5

Ericson stóð ekki einn í starfinu í Keflavík. Ýmsir stóðu með honum í þessu brautryðjendastarfi, en einna ötulast studdi hann Garðar Ragnarsson, bæði í verklegum framkvæmdum og í andlega starfinu. *6 Sumarið 1952 flutti Haraldur Guðjónsson frá Vestmannaeyjum til Keflavíkur og tók við verkstjórn í Hraðfrystistöðinni þar. Haraldur tók virkan þátt í starfinu frá fyrstu stund, en á þessum tíma bjuggu ekki aðrir hvítasunnumenn í Keflavík. *7

Þegar Ericson varð að hætta störfum vegna veikinda á árinu 1958, lagði hann ábyrgðina á starfinu á herðar Haraldi Guðjónssyni og stóð hann fyrir því til 1973. Honum við hlið stóð allan tímann Kristján Reykdal. *8 Eftir það tók Peter Inchcombe við um tíma og síðan Samúel Ingimarsson á árunum 1974 til 1980. Þann 16. október 1983 var Yngvi Guðnason formlega settur inn í embætti forstöðumanns hvítasunnustarfsins í Keflavík og gegndi því til haustsins 1989. *9
Árið 1991 tók Kristinn Ásgrímsson við starfi forstöðumanns, en hann hafði áður veitt forstöðu „Veginum kristnu samfélagi.“ Nú voru þessar kirkjur sameinaðar og hófu starfsemi sína að Hafnargötu 84 það árið. Hét kirkjan þá um nokkurt skeið, Hvítasunnukirkjan Vegurinn. En síðar Hvítasunnukirkjan Keflavík.


Neðanmálsgreinar:

  1. Vår Tro, Göteborg, nóv. og des. 1950.
  2. Vår Tro, Göteborg, maí 1951.
  3. Afturelding 1954, 1.-2.tbl. bls. 15 og Lydía Haraldsdóttir.
  4. Vår Tro, Göteborg, jan. 1955.
  5. Afturelding 1957, 5.-6. tbl. bls. 40
  6. Afturelding 1954, 3.4. tbl. bls. 31.
  7. Lydía Haraldsdóttir. 8 Afturelding 1963, 5.-6. tbl. bls. 38.
  8. Úr dagbók Yngva Guðnasonar.

Byggt á ?Þáttum úr sögu Hvítasunnuhreyfingarinnar?, BA-ritgerð Daníels Jónassonar, sagnfræðings.