Færslur: 2015 Febrúar

14.02.2015 18:08

Athugasemd við breytingu á lögum um Guðlast

Set hér fyrir neðan athugasemd mína við breytingu á lögum um "Guðlast"
Frumvarpið snýst um að taka út refsiákvæði gegn Guðlasti á sama tíma og alþingi hefur sett önnur lög sem gera refsivert að hæðast að fólki. Set þá grein hér:  

Hver sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með
ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis,
litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta
sektum eða fangelsi allt að 2 árum.
Greinin hér að ofan eru breytt lög frá því í fyrra, að það var gert refsivert að hæðast að fólki vegna ofangreindra hluta. 

Athugasemdir við frumvarp um bretyingu á lögum nr. 19/1940 ( Guðlast.)

Vil segja í upphafi að á vissan hátt er ég sammála þar sem ég sem kristinn maður, tel að Guð sé sjálfur fær um að refsa eða öllu heldur fyrirgefa  þeim sem ekki á hann trúa.

Þegar lesin er texti flutningsmanns, kemur hins vegar í ljós, að  hann telur almennt velsæmi óraunhæft. Ef það er hvati þessarra  laga þá er það miður. Hitt er hins vegar jákvætt sem segir í upphafi að "tjáningarfrelsið  er vissulega einn af hornsteinum  lýðræðisins ".

En ef löggjafinn vill setja lög um tjáningarfrelsi , þá er það vissulega rétt   er kemur fram hjá flutningsmanni að fólk þarf að geta tjáð sig, án þess að hafa ótta af yfirvöldum eða öðrum.

Því miður virðist það ekki raunin á Íslandi í dag. ( sbr , málefnaleg rök um Islam eða  samkynhneigð, eru yfirleitt flokkuð sem rasismi eða hatursumræða.)

Þess vegna þurfum við að skilgreina ákveðin hugtök,  hver er munur á " guðlasti" eða  "hatursumræðu" .

Er guðlast ekki hatursumræða ? Og hvað er hatursumræða ? Þurfa ólík sjónarmið að flokkast undir hatursumræðu ?  Undirritaður telur að öll sjónarmið eigi rétt á sér og eigi að vera leyfð, séu þau sett fram með virðingu.  En er Guðlast,  sjónarmið borið fram af virðingu ?

Á meðan þetta frumvarp er í smíðum eru málaferli í gangi á Akureyri gegn kennara, sem tjáði sig á sínu bloggi.  Skoðun Akureyrarbæjar er að kennarinn hafi viðhaft meiðandi ummæli, eða að mínu mati guðlast, hins vegar ekki gegn Guði himinsins , heldur svokölluðum guði  tíðarandans.

Ásmundur Friðriksson þingmaður tjáir sig um bakgrunnsskoðun á ákveðnum trúarhópi og fær bágt fyrir hjá flutningsmanni þessarrar tillögu. Undirritaður þurfti að sæta slíkri bakgrunnsskoðun, (vegna stafs síns)  þrátt fyrir að vera kristinn. Eiga lög að  mismuna á grundvelli trúarskoðana ?

Þess vegna telur undirritaður að ákveðinnar hræsni gæti í flutningi þessarar tillögu, þ.e. ef flutningsmaður vill vera sannur málsvari tjáningarfrelsis á Íslandi. Þar  höfða ég aftur til ummæla hans um að fólk hafi ólíka sýn á lífið. Það  er ekki langt síðan sett voru lög um hatursumræðu á Íslandi og hún gerð refsiverð.  ( Lög nr. 19 12 feb 1940   gr. 233  sem var breytt 29 jan 2014)

Ef við ætlum að hafa lög sem vernda tjáningarfrelsi, verða allir að sitja við sama borð. Ef ekki má  mæla gegn,  "guði tíðarandans"  og það er refsivert,  af hverju þá  að afnema lög sem hefta fólk í að lastmæla Guði skaparanum ,  almennu velsæmi  og koma fram af virðingu.

Ef ástæða er til að breyta lögum nr. 19/1940  um guðlast þá fer ég þess á leit að jafnræðis sé gætt og refsiákvæði einnig  afnuminn í lögum nr. 19 12  gr. 233.

Kristinn Ásgrímsson

Prestur Hvítasunnukirkjunnar í Keflavík

 

02.02.2015 21:00

Bænamánuður að baki.

Janúar mánuður hefur liðið undur fljótt. Við byrjuðum mánuðinn með Bænaviku, þar sem við báðum bæn Jabezar frá 1. Kronikubók 4.9-10. Það má segja að við höfum haldið fast í þessa bæn allan mánuðinn. Höfum haft bænasamkomur 2 kvöld í viku eftir fyrstu vikuna og enduðum síðan mánuðinn með annarri bænaviku. 
Snorri Óskarsson sótti okkur heim helgina 23-25 janúar og talaði hjá okkur á laugardegi og sunnudegi.
Síðan fórum við 3 Kristinn Þórdís og Chris Parker til Akureyrar núna síðustu helgina í þessum mánuði og vorum með kirkjunni þar á bænamóti. 
Og það voru ekki bara við 3 sem sóttum Akureyri heim, heldur einnig biblíuskólinn úr Kirkjulækjarkoti ásamt nokkrum fleiri að sunnan.
Við áttum yndislega helgi saman þar sem andi Guðs starfaði og talaði til okkar.
Helginni lauk með samkomu í Hvítasunnukirkjunni á Akureyri, þar sem við heyrðum vitnisburði flestra úr biblíuskólanum og Paulo Sicoli  prédikaði. 

  • 1
Flettingar í dag: 22
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 536
Gestir í gær: 29
Samtals flettingar: 1486884
Samtals gestir: 202275
Tölur uppfærðar: 10.4.2020 05:14:31